24 Febrúar 2017 10:05

Við vekjum athygli á slæmum veðurhorfum á landinu, en spá Veðurstofu Íslands frá kl. 9.43 í dag er svohljóðandi:

Vaxandi suðaustanátt, 20-28 m/s suðvestantil upp úr hádegi, en norðaustantil undir kvöld. Lægir nokkuð suðvestanlands seint í dag, en norðaustantil um miðnætti. Snjókoma eða slydda og síðar slydda eða rigning. Mikil rigning eða slydda suðaustantil og á Austfjörðum þegar líður á daginn. Suðvestan 10-18 í nótt og él vestantil, en rigning fyrir austan. Áfram él á morgun, en léttir til fyrir austan. Heldur hægari seint á morgun. Hlýnandi veður í dag, hiti 0 til 6 stig í kvöld, en frystir víða á morgun.

Og hér fylgir með athugasemd veðurfræðings:

Suðaustan stormur eða rok (20-28 m/s) gengur norðaustur yfir landið í dag með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum þegar líður á daginn. Veðrið nær hámarki suðvestantil upp úr hádegi, en norðaustantil undir kvöld. Veðrið fer að ganga niður suðvestanlands milli kl 3 og 5 í dag, en norðaustantil um miðnætti. Einnig má búast má við mjög hvössum vindhviðum við fjöll víðast hvar á landinu. Á hálendinu má búast við óveðri með blindhríð.