24 Maí 2007 12:00

Þrír starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra eru nú í starfi og námi á vegum embættisins erlendis. Er þetta liður í því að tryggja að starfsemi embættis ríkislögreglustjóra sé eins fagleg og best gerist á alþjóðavísu og gerir embættinu jafnframt unnt að fylgjast með framþróun löggæslu á heimsvísu.

Sigurgeir Ó. Sigmundsson, lögreglufulltrúi í alþjóðadeild embættisins, er í þriggja mánaða starfsnámi í höfuðstöðvum alþjóðalögreglunnar Interpol í Lyon í Frakklandi.

Námið er ætlað lögreglumönnum sem starfa við alþjóðasamskipti til þess að þeir öðlist ítarlega þekkingu á starfsemi Interpol, jafnt þeirri sem fram fer í höfuðstöðvunum og í aðildarlöndunum sem eru 186. Mikil ásókn er að þessu námi, tæplega 200 umsækjendur en sjö manns sitja það hverju sinni.

Helsta markmið námsins er að nemendur fái innsýn í samskiptakerfi Interpol og þá öflugu gagnagrunna sem þar eru haldnir. Ítarlega er farið í greiningarvinnu upplýsinga sem berast til Interpol og starfsemi mismunandi deilda, s.s. fjármuna- og tölvubrota, smygls á fólki, leitar að barnaníðingum, hryðjuverka, fingrafara og DNA, leitar að eftirlýstum mönnum o.s.frv.

Interpol er öflugasta og víðfeðmasta alþjóðlega löggæslustofnunin en einungis örfá ríki standa utan hennar. Í hverju aðildarríki er ein landsskrifstofa Interpol. Hér á landi er hún í alþjóðadeild ríkislögreglustjórans.

Sveinn Ingiberg Magnússon, lögreglufulltrúi í rannsóknardeild ríkislögreglustjóra er í þriggja mánaða námi í höfuðstöðvum FBI í Quantico, Bandaríkjunum. Námið er ætlað stjórnendum í lögreglu en helsta markmið þess er að auka þekkingu nemenda og gera þá betur í stakk búna til að takast á við flókin löggæsluverkefni og tryggja góð alþjóðleg samskipti löggæslustofnana á heimsvísu.

Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn við embætti ríkislögreglustjóra hefur verið sendur til starfa sem tengifulltrúi ríkislögreglustjóra hjá Evrópulögreglunni, Europol. Höfuðstöðvar Europol eru í Haag, Hollandi. Helstu verkefni Arnars sem tengifulltrúa er að leggja sérstaka áherslu á að safna, greina og miðla upplýsingum til greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi o.fl.