15 Október 2012 12:00

Lögreglunni á Suðurnesjum var um helgina tilkynnt að verið væri að brjótast inn í bifreið í Reykjanesbæ. Þegar lögreglumenn komu á staðinn sáu þeir hvar karlmaður lá í framsæti umræddrar bifreiðar og þóttist sofa. Þeir ýttu við manninum og reis hann þá upp og tjáði þeim að hann væri á leiðinni heim til sín. Þegar lögregla ætlaði að færa hann frá bílnum til að ræða betur við hann lagði hann frá sér í framsætið útvarp, sem hann hafði falið innan klæða. Búið var að róta til í bifreiðinni  og þar fundust munir sem eigandi hennar kannaðist ekki við. Við leit á hinum svefnsækna á lögreglustöð fannst ýmislegt smálegt, þar á meðal tveir gsm-símar. Hann var ofan í kaupið mjög ölvaður.

Ók á ljósastaur

Karlmaður á fertugsaldri missti stjórn á bifreið sinni í Reykjanesbæ og ók á ljósastaur. Ekki er vitað um tildrög óhappsins, en hægra framhorn jeppabifreiðar sem maðurinn ók lenti á staurnum. Bifreiðin var óökufær eftir atvikið og óskaði lögregla því eftir dráttarbifreið til að fjarlægja hana. Ökumaðurinn var í bílbelti og slapp ómeiddur. Þá var ekið á bifreið í Keflavík um helgina og hún skemmd. Ökumaðurinn lét sig hverfa án þess að tilkynna atvikið.