16 Febrúar 2010 12:00

Þrettán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tveir voru stöðvaðir á föstudagskvöld, sex á laugardag og fimm á sunnudag. Tólf voru teknir á ýmsum stöðum í Reykjavík og einn í Hafnarfirði. Þetta voru tólf karlar á aldrinum 16-77 ára og ein kona, 18 ára. Eins og gefur að skilja hefur yngsti ökumaðurinn í þessum hópi aldrei öðlast ökuréttindi en sá reyndi hvað hann gat að komast undan lögreglu. Eftir stutta eftirför yfirgaf hann ökutækið og freistaði þess þá að komast undan á hlaupum en fótfráir lögreglumenn sáu við honum.