5 Febrúar 2025 19:42
Athygli er vakin á því að á morgun, fimmtudaginn 6. febrúar, hefur verið gefin út rauð viðvörun vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu og gildir hún frá kl. 8-13. FÓLK ER HVATT TIL HALDA SIG HEIMA Á MEÐAN ÓVEÐRIÐ GENGUR YFIR Á MORGUN OG VERA EKKI Á FERÐINNI AÐ NAUÐSYNJALAUSU. Á fimmtudag verður röskun á skólastarfi. Grunn- og leikskólar verða þó ekki lokaðir, en halda úti lágmarksmönnun. Í ítrustu neyð þarf að tilkynna skólastjórnendum um komu barns með tölvupósti.
Viðbragðsaðilar hafa sinnt fjölmörgum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í dag en rauð viðvörun vegna veðurs var í gildi til kl. 19. Þá tók við appelsínugul viðvörun fram undir miðnætti, áfram verður leiðindaveður í umdæminu og því heppilegast að halda sig heima við. Verkefni dagsins, sem eru vel á annað hundrað, hafa að stórum hluta snúið að lausamunum sem hafa fokið og einnig varð vatnstjón þegar flæddi inn í hús. Síðdegis var lítil umferð á höfuðborgarsvæðinu og greinilegt að fólk fylgdi þeim tilmælum að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu og er það vel.
Við verkefni dagsins hafa lögreglan og slökkviliðið notið dyggrar aðstoðar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, en björgunarsveitir þess hafa sannarlega staðið í ströngu og að venju skilað ómetanlegu starfi. Það er mikið lán að eiga að alla þessa sjálfboðaliða sem mynda björgunarsveitirnar og bregðast alltaf vel við þegar kallið berst. Hafið kærar þakkir fyrir.