10 Júní 2025 11:34
Ríkislögreglustjóri hefur birt skýrslu um fjölda tilkynninga vegna kynferðisbrota fyrstu þrjá mánuði ársins. Alls bárust 142 tilkynningar til lögreglu á tímabilinu, sem er sami fjöldi og á sama tíma í fyrra. Heildarfjöldi tilkynninga stendur því í stað milli ára.
Skýrslan var unnin af gagnavísindadeild þjónustusviðs ríkislögreglustjóra.
Áberandi er fjölgun tilkynninga um nauðgun. Alls bárust 52 slík mál til lögreglu á fyrsta ársfjórðungi 2025, samanborið við 40 á sama tímabili í fyrra – sem samsvarar tæplega 30% aukningu. Til lengra tíma litið hefur fjöldi tilkynntra nauðgana sveiflast, t.d. voru þær 58 fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, en 37 á sama tímabili árið 2023.
Færri kynferðisbrot gegn börnum og stafræn brot
Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 25 talsins, samanborið við 28 á sama tímabili í fyrra. Ef borið er saman við meðaltal síðustu þriggja ára, má sjá um 28% fækkun. Fjöldi tilkynntra blygðunarsemisbrota var 13, óbreyttur frá fyrra ári. Þá voru tilkynningar um kynferðislega áreitni og stafræn kynferðisbrot 29 talsins, sem er fækkun um 26% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára.
Meðalfjöldi tilkynntra brota til lögreglu fyrstu þrjá mánuði ársins var um 11 brot á viku.
Grunaðir eldri en áður
Í nauðgunarmálum má sjá breytingu á aldursdreifingu sakborninga frá fyrri árum. Hlutfall grunaðra á aldrinum 18-25 ára hefur dregist saman úr 29% árið 2022 í einungis 15 prósent árið 2025. Á sama tíma hefur hlutfall grunaðra á aldrinum 26-35 ára hækkað í 37% sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur á síðustu árum. Hlutfall sakborninga er 42% á þessu aldursbili í tilkynntum nauðgunum.
Fjöldi brotaþola var 125 og þar af 86% kvenkyns á tímabilinu. Meðalaldur brotaþola var 22 ár og voru 46% þeirra undir 18 ára í öllum tilkynntum kynferðisbrotamálum. Rúmlega tólf ára aldursmunur er á meðalaldri brotaþola og grunaðra.
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má finna leiðarvísir um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og upplýsingar um hin ýmsu úrræði sem standa þolendum, aðstandendum og gerendum til boða.
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is.
Fréttin hefur verið uppfærð í upphaflegri frétt kom eftirfarandi fram:
Til lengra tíma litið hefur fjöldi tilkynntra nauðgana sveiflast, t.d. voru þær 58 fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, en 32 á sama tímabili árið 2023.
(Hér er vísað til þegar brot er tilkynnt til lögreglu, en ekki tími brots).
—
Hlutfall grunaðra á aldrinum 18-25 ára hefur dregist saman úr 36% árið 2023 í einungis 14% árið 2025. Á sama tíma hefur hlutfall grunaðra á aldrinum 26-35 ára hækkað í 42% sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur á síðustu árum.
Hið rétta er:
Til lengra tíma litið hefur fjöldi tilkynntra nauðgana sveiflast, t.d. voru þær 58 fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, en 37 á sama tímabili árið 2023.
—
Í nauðgunarmálum má sjá breytingu á aldursdreifingu sakborninga frá fyrri árum. Hlutfall grunaðra á aldrinum 18-25 ára hefur dregist saman úr 29% árið 2022 í einungis 15 prósent árið 2025. Á sama tíma hefur hlutfall grunaðra á aldrinum 26-35 ára hækkað í 37% sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur á síðustu árum. Hlutfall sakborninga var 42% á þessu aldursbili í tilkynntum nauðgunum.