2 Janúar 2006 12:00

Uppfærðar reglur um geymslu skotvopna og skotfæra má finna hér

 

____________________________________________________

Reglur um vopnaskápa og geymslu skotvopna og skotfæra

Samkvæmt 23. gr. Vopnalaga nr. 16/1998 sbr. Og 33. gr. Reglugerðar nr 787/1998, skulu eigendur eða umráðahafa skotvopna og skotfæra ábyrgjast vörslur þeirra og sjá um að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Í því skyni skal húsnæði sem geymir skotvopn og skotfæri ávallt læst ef íbúar eru fjarverandi. Við lengri fjarveru skal auk þess gera skotvopn óvirkt, t.d. með því að fjarlæga af því nauðsynlega hluta aðra en láshús.

Þeim sem eiga eitt til þrjú skotvopn og geyma þau ekki í sérútbúnum vopnaskáp er skylt að hafa gikklás á vopnum sínum þegar þau eru ekki í notkun.  Jafnframt er þeim skylt að geyma þau í læstum hirslum.

Þeim sem á fleiri en þrjú skotvopn er skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra.

Með vísan til ofanritaðs hefur lögreglustjórinn á Akranesi ákveðið eftirfarandi um búnað vopnaskápa og geymslu skotfæra:

Vopnaskápur skal þannig útbúinn:

·          Skápurinn skal gerður úr stáli og þykkt hliða, gafls og hurðar skal vera að lágmarki 3 mm.

·          Lamir skulu vera innfelldar

·          Hann skal búinn minnst einum lykla- og/eða talnalás sem skal vera innfelldur í hurð. Hengilásar eru ekki leyfðir.

·          Hann skal vera boltaður og/ eða steyptur í vegg eða gólf ef eigin þyngd er minni en 150 kg.

·          Hann skal vera með a.m.k. þriggja punkta læsingu (pinnar/boltar), þar af skal einn ganga í hurðakarm lásmegin.

Skotfæri skulu þannig geymd:

·          Í læstu hólfi inni í sérútbúnum samþykktum vopnaskáp eða

·          Í læstum skáp eða annarskonar læstum hirslum sem festar eru í vegg eða gólf.

Heimilt er að tveir eða fleiri aðilar með skotvopnaleyfi samnýti skotvopnaskáp enda hafi þeir einir aðgang að honum og hver og einn eigi eða hafi afnotaheimild að öllum vopnum sem geymd er í skápnum.

Lögreglustjóri getur heimilað geymslu skotvopna í sérútbúnum herbergjum (geymslum) ef fyrir gluggum eru rimlar og fyrir herberginu er sérstök öryggishurð. Lögreglustjóri getur samþykkt vopnaskápa sem fluttir hafa verið inn eða framleiddir fyrir gildistöku þessara reglna þótt þeir uppfylli ekki ofangreind ákvæði.

Reglur þessar öðlast gildi 15. apríl 2004

Akranesi 15. apríl 2004

_________________________________________________

Sýslumaðurinn á Akranesi

Ólafur Þór Hauksson