16 Nóvember 2012 12:00
Lagt var hald á verulegt magn af fíkniefnum við húsleitir í Kaupmannahöfn í Danmörku, en tveir menn hafa verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald í þágu rannsóknarinnar, sem er unnin í samvinnu við lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Mennirnir, Íslendingur á þrítugsaldri og Pólverji á fertugsaldri, búsettur hérlendis, voru handteknir í Kaupmannahöfn í gær, en báðir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu. Hér heima var par handtekið og yfirheyrt vegna málsins, en maðurinn var handtekinn við heimkomu frá Kaupmannahöfn. Hann er íslenskur, rétt eins og konan, en bæði eru þau á þrítugsaldri. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.
Rannsókn málsins, sem snýr m.a. að því hvort flytja hafi átt fíkniefnin til Íslands, hefur staðið yfir í nokkurn tíma og framkvæmdar hafa verið fjórar húsleitir hérlendis vegna þessa. Í þeim aðgerðum hefur verið lagt hald á fjármuni, en einnig stera, tæki og tól sem tengjast sölu og dreifingu fíkniefna og vopn. Við fyrrnefndar aðgerðir lögreglu voru notaðir fíkniefnaleitarhundar frá tollinum.
Frekari upplýsingar er ekki hægt að veita að svo stöddu, en upplýst verður nánar um gang rannsóknarinnar eftir því sem henni vindur fram. Athygli er vakin á því að einnig er fjallað um málið á heimasíðu lögreglunnar í Kaupmannahöfn.