7 Október 2024 16:01
Haustið 2013 var Umferðarsáttmáli allra vegfarenda afhentur þáverandi forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, við athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Umferðarsáttmálanum, sem inniheldur nokkurskonar kurteisisreglur í umferðinni, var ætlað að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferð, hvernig við sýnum hvort öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi.
Umferðarsáttmálinn var í vinnslu um nokkurra mánaða skeið, en hitann og þungann af starfinu báru fjórtán sjálfboðaliðar, karlar og konur á öllum aldri, sem allir höfðu brennandi áhuga á umferðarmálum og umferðaröryggi. Í tengslum við verkefnið var jafnframt haldið úti heimasíðu og fésbókarsíðu með það að markmiði að fá viðhorf sem flestra til þess hvernig umferð okkar og umferðarmenning á að vera, hvað við gerum vel og hvað við getum gert betur. Afraksturinn var Umferðarsáttmáli allra vegfarenda, en mynd af sáttmálanum fylgir hér með að neðan.
Hugmyndin að Umferðarsáttmálanum kom til umræðu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í árslok 2012 og stofnaður var undirbúningshópur með þátttöku fulltrúa frá Umferðarstofu (nú Samgöngustofa). Auglýst var eftir þátttakendum á fésbókarsíðu lögreglunnar í ársbyrjun 2013 og í framhaldinu voru 14 manns valdir í verkefnið.
Umferðarsáttmálinn hefur að geyma mörg sjálfsögð atriði, sem vegfarendur ættu að hafa að leiðarljósi í umferðinni alla daga og því tilvalið að rifja þau upp hér og nú.