6 Janúar 2012 12:00

Þrjú umferðarslys urðu á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudag. Klukkan 11 fór jepplingur út af Vesturlandsvegi við Leirvogstungu í Mosfellsbæ og valt á hliðina. Við stýrið var karl um þrítugt og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Hann var með áverka á baki og hálsi. Slysið er rakið til þess að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum þegar hann var að skipta úr fimmta gír niður í þann fjórða. Við það fór bíllinn að rása í hálku sem var á vettvangi og endaði síðan utan vegar, eins og áður sagði. Meiðsli mannsins voru talin minniháttar. Klukkan 13.50 var grárri fólksbifreið ekið af Stekkjarbakka (frárein) inn á Reykjanesbraut (norðanmegin) og í veg fyrir aðvífandi bíl. Við það varð síðarnefndi ökumaðurinn, sem var á jepplingi, að bremsa og sveigja frá en við það snerist bíllinn hans svo úr varð þriggja bíla árekstur. Hinir bílarnir tveir voru einnig á norðurleið en í öðrum þeirra var kona á fimmtugsaldri og var hún flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. Meiðsli hennar voru talin minniháttar. Ökumaður gráa fólksbílsins, og hinn eiginlegi sökudólgur þess að svona fór, stöðvaði hins vegar ekki för sína og lét sig hverfa af vettvangi og ekki náðust upplýsingar um skráningarnúmer hans. Klukkan 14.14 varð svo tveggja bíla árekstur í vesturborginni þegar ökumaður, sem var á leið frá Hjarðarhaga virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir bíl á Suðurgötu. Ökumaðurinn sem ók Hjarðarhaga fékk lítinn skurð á ennið og ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Eins og fram kom í bráðabirgðatölum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varð um það bil eitt umferðarslys hvern dag ársins 2011,  eða samtals 358 á tímabilinu 1. janúar til 27. desember. Tölur um fjölda slasaðra eða alvarleika liggja ekki fyrir en ljóst er að slasaðir eru nokkuð fleiri en fjöldi slysa segir til um. Í öllum tilvikum er um atvik að ræða þar sem vegfarendur þurfa læknisaðstoðar við í kjölfar umferðaróhapps. Meiðsli þeirra eru m.a. tognanir, beinbrot, innvortis meiðsl, mænuskaðar og höfuðáverkar. Ljóst er því að margir eiga um sárt að binda vegna umferðarslysa.

Það er mat lögreglu að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys leggist allir á eitt um að aka gætilega og sýna tillitssemi í hvívetna. Á það skortir í allt of mörgum tilfellum. Til að freista þess að sýna fram á tengsl orsaka og afleiðinga að þessu leyti mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu senda út tilkynningu tvisvar í viku með upplýsingum um þau umferðarslys sem hún kemur að.  Þar mun koma fram hvar, hvenær og með hvaða hætti slysið varð, að hverju rannsókn lögreglu beinist, hversu margir slösuðust og eftir atvikum alvarleiki meiðslanna.

Um tilraunaverkefni lögreglu er að ræða. Það mun standa yfir í einn mánuð til að byrja með og hófst formlega 1. janúar. Tilkynningarnar verða sendar út á þriðjudögum og föstudögum. Frá áramótum hafa orðið fjögur umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu.