Frá Háteigsvegi.
6 September 2016 14:57

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. ágúst – 3. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. ágúst. Kl. 9.28 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði eftir gangstétt Háteigsvegar, á hlið bifreiðar, sem ekið hafði verið eftir Hjálmholti að gatnamótunum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.03 lenti stúlka, sem hjólaði um Faxafen, á hlið bifreiðar, sem ekið var aftur á bak út úr stöðureit við hús nr. 8. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Fimmtudaginn 1. september kl. 17.49 slasaðist farþegi í strætisvagni er hann rak höfuðið í hliðarslá þegar vagninum var snögghemlað á Miklubraut vegna bifreiðar sem ekið var í veg fyrir hann. Farþeginn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 3. september. Kl. 18.17 varð barn á reiðhjóli fyrir bifreið á gangbraut yfir Bæjarbraut gegnt Garðatorgi. Bifreiðinni var ekið norður götuna þegar barnið hjólaði til vesturs á gangbrautinni. Barnið var flutt á slysadeild. Og kl. 20.37 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Höfðabakka, og bifreið, sem var ekið austur Bíldshöfða. Við áreksturinn kastaðist fyrrnefnda bifreiðin á umferðarljósavita við gatnamótin. Ökumennirnir og tveir farþegar í síðarnefndu bifreiðinni fóru sjálfir á slysadeild til skoðunar.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá Háteigsvegi.

Frá Háteigsvegi.