27 Júní 2017 14:43
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. júní.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 18. júní. Kl. 15.20 var bifreið ekið utan í hjólreiðamann á Hvalfjarðarvegi skammt austan Vesturlandsvegar. Hjólreiðamaðurinn féll af hjólinu og var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.16 var bifreið ekið út af Vesturlandsvegi norðan Bakka. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. júní. Kl. 10.40 varð árekstur með bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði við Fellsmúla 10a og ætlaði til vesturs, og bifreið, sem var ekið vestur Fellsmúla. Við áreksturinn valt fyrrnefnda bifreiðin. Báðir ökumennirnir voru fluttur á slysadeild. Og kl. 22.01 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Lækjargötu og beygt áleiðis suður Suðurgötu, og hjólreiðamanns, sem var á leið vestur Lækjargötu. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. júní. Kl. 20.02 losnaði dekk og felga undan bifreið aftan í dráttarbifreið á leið austur Reykjanesbraut vestan Straums og hafnaði framan á bifreið, sem var ekið í gagnstæða átt. Ökumaðurinn leitaði sér aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 22.10 var léttu bifhjóli ekið austur eftir göngustíg samhliða Korpúlfsstaðavegi að Brúnastöðum og á hlið bifreiðar, sem var ekið austur Korpúlfsstaðaveg og beygt til norðurs að Brúnastöðum. Ökumaður og farþegi á létta bifhjólinu voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn var réttindalaus, auk þess sem óheimilt var að flytja farþega á hjólinu.
Fimmtudaginn 22. júní kl. 8.58 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á göngubrú neðan við Stekkjarbakka. Hann var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 23. júní kl. 13:27 var bifreið ekið austur Bæjarháls að Hraunbæ þegar hún lenti aftan á gráum Mitsubishi, hugsanlega Pajero. Ökumaður þeirrar bifreiðar stöðvaði ekki heldur ók hiklaust á brott. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 24. júní kl. 9.26 valt bifreið á leið vestur Suðurlandsveg vestan Bláfjallavegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.