Frá mótum Sægarða og Vatnagarða.
11 September 2017 14:21

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 4. september. Kl. 8.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Sægarða, og bifreið, sem var ekið vestur Vatnagarða. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 13.59 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka, og bifreið, sem var ekið norður götuna og beygt til vesturs á gatnamótum Stekkjarbakka. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 5. september kl. 18.31 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut til norðurs norðan Miklubrautar. Ökumaður og farþegi úr einni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 6. september. Kl. 7.57 varð hjólreiðamaður, sem hjólaði vestur gangstétt við Bæjarháls og áleiðis yfir gatnamót Bitruháls, fyrir bifreið, sem var ekið frá Bitruhálsi og beygt áleiðis norður Bæjarháls. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.11 varð drengur, sem hjólaði norður gangstétt við Akurgerði, fyrir bifreið, sem var ekið út á götuna frá bifreiðastæði við hús nr. 10. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 8. september. Kl. 7.53 varð drengur, sem hafði hlaupið út á Bæjarbraut við Rofabæ aftan kyrrstæðs strætisvagns, fyrir bifreið sem var ekið norður götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.55 varð drengur á rafmagnsvespu, sem ók austur Sævarhöfða, fyrir bifreið, sem var ekið frá Tangarbryggju. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá mótum Sægarða og Vatnagarða.