Frá vettvangi á mótum Höfðabakka og Stekkjarbakka.
26 September 2017 10:06

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. september.

Sunnudaginn 17. september kl. 14.15 var bifreið ekið norður Höfðabakka, aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Stekkjarbakka og hafnaði síðan á hvolfi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 18. september. Kl. 8.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Eggertsgötu, og bifreið, sem var ekið norður Suðurgötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.30 féll ökumaður af léttu bifhjóli í Rofabæ við Melbæ. Ástæðan er óljós. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 20. september. Kl. 12.01 varð fimm bifreiða árekstur á Hringbraut á leið til austurs við gatnamót Njarðargötu. Ökumaður á miðakrein beygði til vinstri til að koma í veg fyrir að lenda aftan á kyrrstæðri bifreið með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumenn tveggja bifreiða voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.42 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg. Þegar bifreiðin lenti í polli á götunni við Ástún snerist hún, lenti utan í hlöðnum vegg og stöðvaðist loks á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. september. Kl. 8.19 var bifreið ekið í afrein Stekkjarbakka að Reykjanesbraut þegar ökumaðurinn missti stjórn á henni í bleytu, hún snerist og stöðvaðist á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Suðurlandsbraut, og bifreið, sem var ekið norður Faxafen. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 22. september. Kl. 15.42 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið við Skipholt 50D. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.52 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi á leið til norðurs móts við Kópavogslæk. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 23. september kl. 23.45 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg, og bifreið, sem var ekið austur Arnarnesveg og beygt áleiðis inn á Salaveg. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á mótum Höfðabakka og Stekkjarbakka.