4 Desember 2017 16:04
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. nóvember – 2. desember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. nóvember. Kl. 8.30 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Skógarseli gegnt ÍR-svæðinu. Hann leitaði sér sjálfur aðstoðar á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 15.39 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið austur götuna og í U-beygju á gatnamótum Vatnsendahvarfs. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 28. nóvember. Kl. 16.21 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og á ljósastaur við hlið vegarins gegnt Goðatúni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.59 voru tveir gangandi vegfarendur, á leið til austurs yfir Grensásveg, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Skeifuna og beygt áleiðis suður Grensásveg. Ökumaðurinn ók þeim sjálfur á slysadeild. Og kl. 17.25 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut, yfir á rangan vegarhelming gegnt Steinhellu, og framan á bifreið, sem var ekið vestur brautina. Héluð framrúða hafði hindrað útsýni ökumanns fyrrnefndu bifreiðarinnar áður en óhappið varð. Hann, ásamt tveimur farþegum í bifreiðinni, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 1. desember kl. 7.43 varð gangandi vegfarandi á leið yfir Hringbraut í Hafnarfirði, gegnt húsi nr. 66, fyrir bifreið, sem var ekið um götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. desember. Kl. 7.10 lenti bifreið, sem var ekið af Vesturlandsvegi um aðrein að Suðurlandsvegi, á ljósastaur í beygjunni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Suðurfell við Jaðarsel, og bifreið, sem var ekið austur götuna. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni leitaði sér í framhaldinu aðstoðar á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.