Frá vettvangi við Álftanesveg.
6 Mars 2018 14:53

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. febrúar – 3. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 28. febrúar. Kl. 8.27 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Urriðaholtsstræti, og bifreið, sem var ekið austur Kauptún. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.29 var bifreið ekið af Víkurvegi, inn á hringtorg Korpúlfsstaðavegar og á hlið bifreiðar, sem var ekið um torgið. Eftir áreksturinn fór ökumaður bifreiðarinnar fótgangandi af vettvangi. Ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 1. mars. Kl. 13.49 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Reykjavíkurveg og beygt áleiðis norður Álftanesveg, og bifreið, sem var ekið vestur Hafnarfjarðarveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 13.52 var bifreið ekið austur Nýbýlaveg og aftan á bifreið við gatnamót Túnbrekku. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér aðstoðar á heilsugæslu vegna eymsla.

Föstudaginn 2. mars kl. 11.26 féll maður af reiðhjóli við gatnamót Þverholts og Skipholts. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 3. mars kl. 13.03 varð fimm bifreiða aftanákeyrsla við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar á leið til vesturs. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumenn voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Álftanesveg.