Frá vettvangi á Hringbraut.
5 Nóvember 2018 13:45

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur og einn lést í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. október  – 3. nóvember.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. október. Kl. 1.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis vestur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut. Við áreksturinn valt síðarnefnda bifreiðin heila veltu uns hún stöðvaðist á girðingu, sem aðskilur akbrautirnar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 5.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Reykjanesbraut, skammt austan mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar, og bifreiðar, sem var ekið vestur brautina og yfir á rangan vegarhelming á nefndum stað. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar, mun hafa sofnað undir stýri skömmu áður en óhappið varð. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild, þar sem farþeginn var úrskurðaður látinn.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. október. Kl. 5.22 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg. Skammt austan Grundahverfis fór bifreiðin út fyrir veg og valt. Ökumaðurinn leitaði sér í framhaldinu aðstoðar á sjúkrahúsinu á Akranesi. Og kl. 15.51 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Reykjahlíð við Miklubraut. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. október. Kl. 15.32 var bifreið ekið suður Langarima. Skammt frá gatnamótum Hrísrima féll ökumaður í yfirlið með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir umferðarmerki og á milli strætisvagnsskýlis og ljósastaurs uns hún stöðvaðist á gatnamótunum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.17 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og aftan á bifreið gegnt Lyngási eftir að ökumaður hafði blindast af síðdegissólinni. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin á þá þriðju. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 2. nóvember kl. 15.10 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hringbraut til vesturs austan Vatnsmýrarvegar. Við áreksturinn valt ein bifreiðin yfir á þakið. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 3. nóvember kl. 16.21 var bifreið ekið vestur Kristnibraut og inn á Sóltorg þar sem hún valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Hringbraut.