Frá vettvangi á Bústaðavegi.
7 Maí 2019 11:24

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. apríl – 4. maí.

Sunnudaginn 28. apríl kl. 10.44 rákust tveir hjólreiðamenn saman í hópi samferðamanna um Iðunnartorg gegnt Mímisbrunni. Annar þeirra var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. apríl. Kl. 8.01 var barn, sem hjólaði austur Bollagarða, fyrir bifreið, sem var ekið til suðurs áleiðis út úr botnlanga götunnar. Barnið var flutt á slysadeild. Kl. 10.31 var bifreið ekið aftur á bak frá bilaðri miðavél að bifreiðastæðishúsinu við Vitatorg og yfir fót á manni, sem var að gera við vílina. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.52 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut og á ljósastaur utan vegar við gatnamót Árskóga. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. apríl. Kl. 13.32 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið, sem var ekið aftur á bak úr stöðureit á bifreiðastæði framan við Sorpu í Knarrarvogi. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.45 var bifreið ekið austur hægri akrein Reykjanesbrautar, en þegar ökumaðurinn skipti um akrein gegnt Kauptúni rakst vagn aftan í bifreiðinni utan í hlið bifreiðar á vistri akreinni. Ökumaður þeirrrar bifreiðar beygði frá og rakst hún þá utan í vegrið með brautinni. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.39 var bifreið ekið Álftanesveg til vesturs og á ljósastaur við veginn gegnt Hraunprýði. Ökumaðurinn, sem hafði fengið aðsvif við aksturinn, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 1. maí kl. 10.37 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Urriðaholtsbraut, og bifreið, sem var ekið norður Kauptún. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. maí. Kl. 15.42 varð aftanákeyrsla í afrein frá Bæjarhálsi að Höfðabakka til norðurs. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.06 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg, og bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Stjörnugróf. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í framhaldinu.

Laugardaginn 4. maí kl. 15.27 hjólaði hjólreiðamaður vestur hjólastíg sunnan Einarsness, út á akbrautina framhjá mannlausri bifreið, sem lagt hafði verið á hjólastíginn, og framan á bifreið, sem var ekið austur Einarsnes. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Bústaðavegi.