Frá vettvangi í Ártúnsbrekku.
18 Júní 2019 15:32

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. júní.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 10. júní. Kl. 13.29 varð gangandi vegfarandi á göngustíg, sem þverar hjólreiðastíg í Elliðavogi, fyrir hjólreiðamanni á leið vestur eftir stígnum. Bæði hjólreiðamaðurinn og gangandi vegfarandinn voru fluttir á slysadeild. Kl. 15.15 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á leið austur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku, gegnt Malarhöfða. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar hafði hægt á sér til að hleypa gangandi önd yfir götuna. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.04 varð aftanákeyrsla tveggja bifreiða á leið austur Miklubraut gegnt Mörkinni. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 11. júní kl. 10.06 var bifreið ekið áleiðis í U-beygju á Stekkjarbakka gegnt Heimahvammi og í veg fyrir strætisvagn, sem var ekið vestur Stekkjarbakka. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 12. júní kl. 18.02 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til vesturs, austan Selásbrautar. Farþegi í aftari bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 13. júní kl. 9.18 var bifreið ekið aftur á bak á bifreiðastæði við Bíldshöfða 1a og á kyrrstæða bifreið. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 14. júní kl. 15.50 féll ökumaður af bifhjóli sínu í Baugakór eftir að hafa lent utan í kantsteini og á dráttarkrók mannlausrar bifreiðar. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Ártúnsbrekku.