Frá vettvangi á Hvalfjarðarvegi.
14 Október 2020 11:40

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. október, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. október. Kl. 12.14 varð árekstur á Hvalfjarðarvegi við afleggjara að bænum Útkoti. Þá var pallbifreið ekið frá bænum og í veg fyrir mjólkurbíl, sem var ekið Hvalfjarðarveg í norðaustur. Ökumaður pallbifreiðarinnar,  sem í aðdragandanum blindaðist af sólinni, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.18 var bifreið ekið á hjólreiðamann norðanmegin hringtorgs á mótum Skeiðarvogs og Suðurlandsbrautar. Í aðdragandanum fór hjólreiðamaðurinn austur Suðurlandsbraut og yfir hjólaþverun norðan hringtorgsins, en bifreiðinni var ekið út úr hringtorginu og í Skeiðarvog til norðurs. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 6. október kl. 8.37 var bifreið ekið á hjólreiðamann á bifreiðastæði í Kleifarseli við Seljaskóla. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 8. október. Kl. 8.35 var tilkynnt um mikið tjónaða bifreið í skurði við Þingvallaveg, rétt ofan við Gljúfrastein, í Mosfellsbæ. Enginn var á vettvangi þegar að var komið, en rannsókn leiddi til þess að ökumaðurinn var handtekinn um hádegisbil, en hann er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Ökumaður og farþegi höfðu sjálfir leitað á slysadeild eftir slysið. Og kl. 17.51 var bifreið ekið á hjólreiðamann í hringtorgi á mótum Kaldárselsvegar, Klettahlíðar og Brekkuáss. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Kaldárselsveg, en hjólreiðamaðurinn fór Brekkuás í norður og þaðan inn í hringtorgið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 9. október kl. 14.51 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Grensásvegar, Suðurlandsbrautar og Engjavegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Grensásveg og hugðist ökumaður hennar síðan beygja Suðurlandsbraut til vesturs, en hinni bifreiðinni var ekið suður Engjaveg og inná gatnamótin með fyrirhugaða akstursstefnu suður Grensásveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.