Frá vettvangi á gatnamótum Bústaðavegar og Sogavegar.
15 Febrúar 2021 17:23

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. febrúar, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 7. febrúar kl. 12.28 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Framnesvegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Hringbraut, en hinni Framnesveg og inn á gatnamótin. Talið er að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 9. febrúar kl. 14.54 var bifreið ekið norður Fjarðarhraun, við Hjallahraun, á gangandi vegfaranda á gangbraut. Talið er að grænt ljós hafi logað fyrir akstursstefnu bifreiðarinnar. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. febrúar. Kl. 11.11 varð tveggja bíla árekstur á mótum Bústaðavegar og Sogavegar. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Bústaðaveg, en hinn austur Bústaðaveg og beygði ökumaður hennar til vinstri og hugðist síðan aka norður Sogaveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.47 var bifreið ekið vestur Vínlandsleið að Krókstorgi við Laxalón, en þar hafnaði hún á jarðvegshleðslu í miðju torgsins. Bifreiðin var búin sumarhjólbörðum, en hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 11. febrúar kl. 16.33 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegar, Snorrabrautar og Burknagötu. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Snorrabraut, en hinni vestur afrein af Miklubraut og að gatnamótunum og hugðist ökumaðurinn hennar aka yfir gatnamótin og síðan áfram vestur Burknagötu. Talið er að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökmannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. febrúar. Kl. 11.14 var bifreið ekið á aðra á bifreiðastæði á Helluhrauni, en í aðdragandanum er talið að ökumaðurinn hafi fengið flogakast. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.08 var bifreið ekið vestur Álftanesveg og aftan á aðra við gatnamót gamla Álftanesvegar. Fremri bifreiðin var kyrrstæð, en ökumaður hennar hugðist taka vinstri beygju og aka síðan áfram gamla Álftanesveginn. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 13. febrúar kl . 13.46 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg og aftan á aðra við Lyngás. Fremri bifreiðin var kyrrstæð, en ökumaður hennar hafði numið staðar á rauðu ljósi. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.