Frá vettvangi á gatnamótum Suðurlandsbrautar, Grensásvegar og Engjavegar.
14 September 2021 13:33

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. september, en alls var tilkynnt um 44 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. september. Kl. 13.36 var bifreið ekið vestur Flatahraun og stöðvaði ökumaður hennar við gangbraut til að hleypa gangandi vegfaranda yfir götuna. Í sömu mund var annarri bifreið, sem á eftir kom, ekið aftan á fyrri bifreiðina og kastaðist sú áfram inn á gangbrautina og þar utan í gangandi vegfaranda. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.54 var bifreið ekið austur Krókháls og aftan á bifreið fyrir framan sem ekið var í sömu átt. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 7. september. Kl. 17 var bifreið ekið norður Tryggvagötu og beygt í vinstri beygju vestur Geirsgötu þegar reiðhjólamaður hjólaði suður yfir Geirsgötu, frá Miðbakka á ljósastýrðum vegamótum Tryggvagötu og Geirsgötu, svo árekstur varð með þeim.  Hjóreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Grænt umferðarljós logar fyrir báðar aksturstefnur á götuvitum umferðarstýringar á gatnamótunum, en ekki er varin vinstri beygja. Kl. 17.23 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg, á móts við þjónustustöð Orkunnar, þegar henni var ekið aftan á bifreið fyrir framan sem kastaðist áfram á þriðju bifreiðina þar fyrir framan og utan í vegrið sem þar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.43 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut, á móts við Kauptún, og þar aftan á aðra bifreið sem var ekið sömu aksturleið fyrir framan.  Ökumaður og farþegi úr fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 8. september kl. 18.55 var reiðhjóli hjólað vestur/niður Gerplustræti á gangstétt þar sem hjólamaðurinn steyptist fram fyrir sig á hjólinu og féll í götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 9. september. Kl. 7.44 var bifreið ekið suður Krókamýri og áleiðis í vinstri beygju inn á Bæjarbraut þegar reiðhjóli var hjólað Bæjarbraut og lenti það á vinstri hlið bifreiðarinnar.  Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Biðskylda er fyrir umferð um Krókamýri gagnvart umferð sem ekið er um Bæjarbraut. Og kl. 16.06 var bifreið ekið suður Engjaveg inn á gatnamót Suðurlandsbrautar, með fyrirhugaða aksturstefnu suður Grensásveg, þegar annarri bifreið var ekið norður Grensásveg í vinstri beygju vestur Suðurlandsbraut þar sem árekstur varð með bifreiðunum. Grænt umferðarljós logar fyrir báðar akstursstefnur norður/suður á ljósastýringu en ekki er varin vinstri beygja á þessum stað.  Annar ökumannanna og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 10. september kl. 14.29 var bifreið ekið Brautarholtsveg á Kjalarnesi, milli Jörfa og Hofs, þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún valt utan vegar. Þrír voru á vettvangi þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn, en enginn þeirra viðurkenndi að hafa verið undir stýri. Þremenningarnir voru handteknir, en einn þeirra var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.