Frá vettvangi í Blesugróf.
13 Maí 2022 10:02

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. maí, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 2. maí kl. 12.47 var bifreið ekið vestur Laugaveg á vinstri akrein og inn á gangbraut, sem þverar veginn þar sem gangbrautarljós stýra umferð, þegar gangandi vegfarandi fór yfir veginn og í veg fyrir bifreiðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Að sögn vitna var grænt ljós á götuvitum fyrir akandi umferð og töldu vitni því hafa verið rautt ljós fyrir gangandi þegar vegfarandinn hljóp viðstöðulaus norður yfir gangbrautina í veg fyrir bifreiðina.

Þriðjudaginn 3. maí kl. 10.25 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut að gatnamótum Bústaðavegar og þar aftan á bifreið. Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var á, kvaðst hafa stöðvað við gatnamótin þar sem hefði kviknað rautt ljós á umferðarstýringu fyrir umferð vestur Reykjanesbraut og bifreið hans því kyrrstæð. Sami ökumaður var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 4. maí kl. 12.25 var bifreið ekið suður Barónsstíg inn á gatnamót Hverfisgötu þegar rafmagnshlaupahjóli var ekið austur reiðhjólastíg á Hverfisgötu.  Hjólreiðamaðurinn hjólaði á aftanverða hægri hlið bifreiðarinnar og féll hann í götuna með hjólinu.  Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 6. maí kl. 9.49 varð reiðhjólaslys á Strandgötu í hringtorgi við Hvaleyrarbraut þegar tveimur reiðhjólum var hjólað saman úr gagnstæðum áttum. Annar hjólreiðamannanna, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 7. maí. Kl. 11.51 var bifreið ekið frá Stjörnugróf yfir grasbala og þvert yfir innkeyrslu á einkalóð við Blesugróf og hafnaði bifreiðin þar á stóru tré. Ökumaður kvaðst hafa stigið af misgáningi á eldsneytisgjöf í stað hemla þegar hann ætlaði að stöðva bifreiðina og því ekið á tréð á talsverðri ferð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.38 var bifreið ekið vestur Njarðargötu, við Freyjugötu, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað á götunni norður Freyjugötu inn á gatnamót Njarðargötu svo árekstur varð. Freyjugata er merkt einstefna í suður og hjólreiðamaðurinn því hjólað gegn einstefnu og sem fyrr segir á götunni. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.