Frá vettvangi við gatnamót Hjallahrauns og Fjarðarhrauns.
2 Janúar 2023 16:23

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. desember, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fimmtudaginn 29. desember kl. 6.23 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, að gatnamótum við Kringlumýrarbraut og á varnargirðingu og skiltabrú sem þar er áföst við umferðarljós. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 30. desember kl. 8.32 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Fjarðarhrauns og Hjallahrauns í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Fjarðarhraun og beygt til vinstri að Hjallahrauni, en hinni var ekið suður Fjarðarhraun. Ekki er varin vinstri beygja á þessum stað í ljósastýringunni. Háir snjóruðningar voru við gatnamótin og byrgðu sýn að sögn beggja ökumanna, en báðir voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 30. desember kl. 14.07 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Garðabæ, skammt norðan við Vífilsstaðaveg, og aftan á aðra bifreið, sem hafði dregið úr hraða vegna bæði umferðar fram undan og sólarblindu. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.