Frá vettvangi við Krýsuvíkurveg.
25 Júlí 2023 13:51

Undanfarnar tvær vikur slösuðust tuttugu og þrír vegfarendur í nítján umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikurnar 9. – 22. júlí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 10. júlí Kl. 8.50 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Klapparstíg, við Hverfisgötu, í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.33 var bifreið bakkað frá húsi í Lindarseli í Reykjavík og á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gangstétt. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 21.21 varð árekstur með bifreið og bifhjóli í Vesturbergi í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifhjólinu ekið eftir göngustíg, sem þverar Vesturberg, og í hlið bifreiðarinnar. Ökumaður bifhjólsins og farþegi hans voru fluttir á slysadeild. Sá síðarnefndi var ekki með öryggishjálm. Og kl. 22.39 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Hverfisgötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 11. júlí kl. 19.41 ók ökumaður rafmagnsvespu á slá í Kirkjustræti, við Alþingishúsið, og féll í götuna. Sláin lokar veginum fyrir umferð, en opnun er stýrt úr Alþingishúsinu. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 12. júlí. Kl. 0.55 féll ökumaður af rafskútu á göngustíg við Vífilsstaðaveg í Garðabæ. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.09 var bifreið ekið af bifreiðastæði Olís í Norðlingaholti í Reykjavík, inn á Suðurlandsveg í veg fyrir aðra bifreið sem var ekið Suðurlandsveg til vesturs. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.21 var bifreið ekið á reiðhjól á bifreiðastæði við Krónuna á Flatahrauni í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 14. júlí. Kl. 8.24 rákust saman tvö rafmagnshlaupahjól í undirgöngum við Stekkjarbakka í Reykjavík, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.21 var rafmagnshlaupahjóli ekið í hlið bifreiðar á gatnamótum Hjallahrauns og Dalshrauns í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Sunnudaginn 16. júlí kl. 16.15 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Bæjarhálsi, við Höfðabakka, í Reykjavík. Einn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 17. júlí. Kl. 10.56 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Snorrabraut, við Bergþórugötu, í Reykjavík. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.30 var bifreið ekið á reiðhjól á gangbraut á Hallsvegi í Reykjavík. Aðstandandi flutti hjólreiðamanninn á slysadeild. Og kl. 18.25 féll hjólreiðamaður af rafmangshlaupahjóli á gangstétt í Hamrahlíð í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 19. júlí kl. 16.41 var bifreið ekið á reiðhjól á gatnamótum Blómvalla og Akurvalla í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Samkvæmt vitnum var reiðhjólinu hjólað viðstöðulaust yfir gatnamótin á nokkurri ferð.

Fimmtudaginn 20. júlí kl. 7.55 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Bæjarhálsi, við Hálsabraut, í Reykjavík. Tveir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. júlí. Kl. 3.16 hafnaði bifreið utan vegar á Krýsuvíkurvegi, rétt sunnan við Bláfjallaveg, í Hafnarfirði. Þrír voru fluttir á slysadeild. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað í aðdraganda slyssins. Og kl. 22.43 var bifhjóli ekið á kyrrstæða bifreið í Rauðhellu í Hafnarfirði. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 22. júlí kl. 11.50 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli við Reykjaveg, við Lindarbyggð, í Mosfellsbæ. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.