10 Ágúst 2023 12:48
Undanfarnar tvær vikur slösuðust átján vegfarendur í sextán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikurnar 23. júlí – 5. ágúst, en alls var tilkynnt um 66 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 23. júlí. Kl. 0.45 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Hofakri í Garðabæ. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 5.02 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Lundahólum í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 20.57 var bifreið ekið á ljósastaur á Grensásvegi, rétt sunnan við Miklubraut, í Reykjavík þar sem hún síðan valt. Veikindi ökumanns kunna að hafa átt þátt í slysinu. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.11 féll ökumaður bifhjóls af því á gatnamótum Laugavegs og Vegamótastígs í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild, en viðkomandi er grunaður um að hafa gerst sekur um ýmiss umferðarlagabrot í aðdraganda slyssins.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 24. júlí. Kl. 10.10 féll ökumaður af bifhjóli í Klettagörðum við Skarfagarða í Reykjavík þegar hann þurfti að nauðhemla til að forðast árekstur við aðvífandi bifreið. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.24 féll ökumaður af bifhjóli á Lambhagavegi, hjá hringtorgi við Bauhaus, í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 25. júlí. Kl. 2.56 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Borgartúni, við Höfðatorg, í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.43 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á Álftanesvegi, við Garðastekk, í Garðabæ. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 28. júlí. Kl. 16.15 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Nýbýlavegar og Hjallabrekku í Kópavogi. Grunur er um að annarri bifreiðinni hafi verið beygt í veg fyrir hina í aðdraganda slyssins. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.29 var bifreið ekið inn í garð við Vogatungu í Mosfellsbæ. Talið er að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 29. júlí kl. 23.04 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Laugavegi Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 31. júlí kl. 13.40 var bifreið ekið norður Gullinbrú í Reykjavík þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni svo bifreiðin valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1. ágúst. Kl. 10.33 var bifreið ekið á reiðhjól á gatnamótum Skerjabrautar og Nesvegar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á heilsugæsluna að hans beiðni. Og kl. 16.41 varð árekstur reiðhjóls og rafmagnshlaupahjóls á reiðhjólastíg, sem liggur samsíða Suðurlandsbraut, á milli Langholtsvegar og Skeiðarvogs, í Reykjavík. Einn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 3. ágúst kl. 19.46 varð árekstur reiðhjóls og rafmagnshlaupahjóls og á mótum göngu- og hjólareiðastíga við undirgöng undir Reykjanesbraut í Elliðaárdal í Reykjavík. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild. Hinn er grunaður um ölvun.
Laugardaginn 5. ágúst kl. 2.12 féllu þrjú ungmenni af rafmagnshlaupahjóli við Hagskaup í Skeifunni í Reykjavík. Eitt þeirra var flutt á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.