22 Ágúst 2023 16:07

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. ágúst, en alls var tilkynnt um 47 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 13. ágúst kl. 17.26 var bifreið ekið á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði, frá Kleifarvatni, en við Bláfjallaveg missti ökumaðurinn stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Vitni sögðu að bifreiðinni hefði verið ekið hratt og ógætilega í aðdraganda slyssins. Tveir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 14. ágúst. Kl. 16.57 var bifreið ekið norður Kópavogsháls, áleiðis inn í hringtorgið á gatnamótum Borgarholtsbrautar og Digranesvegar í Kópavogi og á rafmagnshlaupahjól, sem var hjólað vestur á göngustíg meðfram Digranesvegi, en hjólreiðamaðurinn þveraði gangbraut sem er við hringtorgið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.03 var bifreið ekið út af bifreiðastæði við Strandgötu í Hafnarfirði og á reiðhjól, sem var hjólað meðfram götunni. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild af aðstandanda.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 15. ágúst. Kl. 12.28 var bifreið ekið norður Herjólfsbraut í Hafnarfirði, við Garðaveg, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði utan vegar og á steinvegg. Tveir voru fluttir á slysadeild. Kl. 14 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli og ofan í læk við göngubrú yfir Varmá í Mosfellsbæ. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 15.41 var bifreið ekið vestur Suðurlandsbraut í Reykjavík, inn á gatnamótin við Reykjaveg, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni svo bifreiðin fór upp á kantstein/handrið fyrir reiðhjólamenn og valt áfram eftir veginum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.20 var bifreið ekið um Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, en ökumaður hennar tók vinstri beygju við Brekkutröð og hugðist aka þar til suðurs. Á sama tíma var bifhjóli ekið um Hvaleyrarbraut úr gagnstæðri átt svo árekstur varð með þeim. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.37 var bifreið ekið vestur Borgartún í Reykjavík, frá hringtorgi við Sóltún, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði á tveimur öðrum bílum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en talið er að slysið megi rekja til veikinda hans.

Laugardaginn 19. ágúst kl. 16.50 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngu- og hjólastíg við Ásaveg í Mosfellsbæ. Í aðdragandanum er talið að hann hafi lent í grasbala sem þarna er og því misst stjórn á hjólinu. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.