12 September 2023 16:07
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. september, en alls var tilkynnt um 42 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 3. september kl. 22.37 varð tveggja bíla árekstur á Suðurlandsbraut í Reykjavík, á gatnamótum við Grensásveg. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en ökumaður annarrar bifreiðarinnar hugðist beygja til vinstri og aka Grensásveg til suðurs þegar áreksturinn varð. Hinn ökumaðurinn viðurkenndi að hafa ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum í aðdraganda slyssins. Þrír voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 4. september kl. 17.49 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli í möl í nágrenni við Nesvöll á Seltjarnarnesi. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 6. september kl. 14.14 var bifreið ekið á húsvegg við Bónus í Mosfellsbæ. Í aðdragandanum, þegar ökumaðurinn var að leggja í stæði, rann fótur hans af bremsunni yfir á inngjöf bifreiðarinnar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. september. Kl. 8.31 var bifreið ekið frárein frá Stekkjarbakka og inn á Reykjanesbraut í Reykjavík þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni, en við það snerist bifreiðin í hringi og hafnaði á ljósastaur. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.19 var bifreið ekið vestur Nesjavallaveg í Mosfellsbæ þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni, en bifreiðin hafnaði á hitaveitulögn sem liggur meðfram veginum. Farþegi var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 8. september kl. 16.40 var bifreið ekið norður Laufásveg í Reykjavík, inn á gatnamót Bragagötu og á reiðhjól, sem var hjólað austur Bragagötu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.