Frá vettvangi á gatnamótum Ögurhvarfs og Vatnsendahvarfs.
24 Október 2023 16:54

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. október, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 17. október. Kl. 8.37 var bifreið ekið á vespu á mótum Þvervegar og Borgavegar í Reykjavík. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.41 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Nýbýlavegar, Skemmuvegar og Valahjalla i Kópavogi. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Skemmuveg, yfir gatnamótin, og áleiðis inn á Valahjalla, en hinni bifreiðinni var ekið frá Valahjalla og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri á gatnamótunum og aka Nýbýlaveg til norðurs þegar árekstur varð með þeim. Tveir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. október. Kl. 8.27 var bifreið ekið á reiðhjól á gönguleið við hringtorg á gatnamótum Langarima og Borgavegar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.33 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, rétt austan Vatnsendahverfs, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Fimmtudaginn 19. október kl. 23.53 var bifreið ekið að gatnamótum Vatnsendahvarfs og Ögurhvarfs í Kópavogi og aftan á aðra, sem virtist hafa stöðvað á grænu ljósi. Fimm voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 20. október. Kl. 7.44 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjavíkurvegar, Hafnarfjarðarvegar og Álftanesvegar. Rannsókn málsins beinist að því hvort annarri bifreiðinni hafi verið ekið inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir ætluðu sjálfir að leita á slysadeild. Og kl. 18.59 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangstétt við Hringbraut í Reykjavík og á bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 21. október kl. 14.16 valt buggy-bíll á Vigdísarvallarvegi í Hafnarfirði, við Ketilsstíg, og fór þrjár veltur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.