26 Júní 2024 11:43
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. júní, en alls var tilkynnt um 39 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 17. júní kl. 0.23 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Arnarnesvegi í Kópavogi, við Akralind. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. júní. Kl. 16.29 var bifreið ekið norður Vetrarbraut í Garðabæ, við Miðgarð, og á reiðhjól sem þveraði veginn á gangbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.10 var bifreið ekið frá Hjallakirkju í Kópavogi og inn á Hlíðarhjalla, en á sama tíma var reiðhjóli hjólað vestur á gangstétt við götuna svo árekstur varð með þeim. Töluverður gróður er á vettvangi og byrgði hann báðum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 19.15 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Lambhagavegi í Reykjavík og stöðvaðist bifreiðin síðan upp á hringtorgi við Bauhaus. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.08 féll ökumaður bifhjóls af því á Ægisgarði í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er próflaus og grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. júní. Kl. 9.12 féll maður af reiðhjóli á göngu- og hjólastíg við Kringlumýrarbraut í Reykjavík, við Hótel Grand. Í aðdragandanum hemlaði hjólreiðamaðurinn, sem var á norðurleið, til að forðast árekstur við bifreið, sem var ekið frá hótelinu. Þarna er skjólveggur sem byrgir sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.35 var bifreið ekið frá Bíldshöfða í Reykjavík inn á aðrein vestur Vesturlandsveg, en þar steig ökumaðurinn óvart á bensíngjöfina í stað hemla. Við það missti hann stjórn á bifreiðinni sem þá kastaðist á vegrið við götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. júní. Kl. 12.56 var bifreið ekið yfir á öfugan vegarhelming í Hvalfjarðargöngunum. Við það rakst hún utan í vörubifreið með eftirvagn, sem kom úr gagnstæðri átt og í kjölfarið framan á aðra bifreið sem kom þar á eftir. Tveir farþegar úr henni voru fluttir á slysadeild. Tveir hjólbarðar losnuðu af eftirvagninum þegar ekið var á hann og höfnuðu þeir á fjórðu bifreiðinni með tilheyrandi tjóni. Ökumaðurinn sem fór yfir á öfugan vegarhelming er grunaður um ölvunarakstur. Kl. 19.46 féll ökumaður af vespu við gatnamót Laugavegar og Nóatúns í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.51 féll maður af reiðhjóli í Ögurhvarfi í Kópavogi. Reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 22. júní kl. 18.29 var rafmagnshjóli (einhjóli) hjólað á gangandi vegfaranda í Bankastræti í Reykjavík. Vitni sögðu hjólið hafa farið um mjög hratt og ógætilega. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.