8 Ágúst 2024 14:22
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. júlí – 3. ágúst, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. júlí. Kl. 1.59 féllu hjólreiðamaður og farþegi af rafmagnshlaupahjóli á göngu- og hjólastíg í Skeiðholti i Mosfellsbæ. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.32 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hjallabrautar og Reykjavíkurvegar í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið inn á gatnamótin frá Hjallabraut, en hinni suður Reykjavíkurveg svo árekstur varð með þeim. Vitni sögðu síðarnefndu bifreiðinni hafa verið ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. júlí. Kl. 17.51 varð aftanákeyrsla á Arnarnesvegi í Garðabæ, austan við hringtorg á gatnamótum við Fífuhvammsveg. Þar var fremri bifreiðin kyrrstæð vegna gangandi vegfarenda, sem voru á leið yfir götuna á merktri gangbraut. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar, sem ekið var á, voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.16 varð aftanákeyrsla í Stekkjarbakka í Reykjavík, þ.e. á brúnni sem liggur yfir Reykjanesbraut að hringtorgi við Smiðjuveg. Í aðdragandanum hafði ökumaður fremri bifreiðarinnar hemlað vegna gæsahóps á veginum. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.43 losnaði hestakerra aftan úr bifreið á Suðurlandsvegi við Heiðmerkurveg. Við það hafnaði kerran utan vegar og valt, en í henni voru tveir hestar. Ökumaðurinn slasaðist þegar hann fór að huga að hestunum. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 30. júlí kl. 11.47 var bifreið ekið austur Hólsveg í Reykjavík, að gatnamótum við Langholtsveg, og á rafmagnshlaupahjól sem þveraði veginn á hraðahindrun/gönguleið sem þarna er. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 31. júlí. Kl. 10.49 hafnaði bifreið inni í garði og á glerhúsi í Raufarseli í Breiðholti eftir að hafa áður ekið á mannlausa bifreið í sömu götu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.03 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á mótum Fjallkonuvegar og Reykjafoldar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var að fara yfir hraðahindrun þegar slysið varð, en gróður byrgir sýn á þessum stað. Ökumaðurinn nam ekki staðar og ók af vettvangi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 21.28 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og yfir gatnamótin í Engidal gegn rauðu ljósi. Þar missti ökumaðurinn stjórn á bílnum, sem hafnaði utan vegar og valt. Töluverð bleyta var á vettvangi. Vitni sögðu ökumanninn hafa ekið vel yfir leyfðan hámarkshraða. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.59 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Vífilsstaðavegi í Garðabæ, við Löngulínu, sem við það valt á hliðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 2. ágúst. Kl. 3 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, rétt norðan við frárein frá Miklubraut, og á gangandi vegfaranda. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 13.31 var bifreið ekið suður Hvalfjarðargöng, yfir á öfugan vegarhelming og á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.22 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Klambratúni í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var í annarlegu ástandi, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 3. ágúst. Kl. 20.05 missti ökumaður bifreiðar á leið norður Reykjanesbraut í Garðabæ, við Vífilsstaðaveg, stjórn á henni þegar annarri bifreið var sveigt i veg fyrir hana. Við það hafnaði bifreiðin á vegriði. Dekkjabúnaður bifreiðarinnar var ekki í samræmi við lög. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.29 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á gatnamótum Hamraborgar og Vallartraðar í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifhjólinu ekið austur Hamraborg, en bifreiðinni norður Vallarströð. Bifhjólamaðurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuréttindum, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.