30 Júlí 2024 13:10
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. júlí, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þriðjudaginn 23. júlí kl. 7.03 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut í Hafnarfirði, sunnan við Straum, og á umferðarskilti við veginn. Í framhaldinu hafnaði bifreiðin utan vegar, valt þrjár veltur og endaði á grjótgarði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. júlí. Kl. 9.43 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því á göngustíg neðan við Fífuhvamm í Kópavogi. Um var að ræða svokallað pósthjól, en ökumaðurinn valt með því niður grasbala og á hellulagða stétt. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.18 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið suður Kringlumýrarbraut og hinni vestur Miklubraut þegar áreksturinn varð, en sú síðarnefnda var lögreglubifreið í forgangsakstri. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 26. júlí kl. 8.51 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Laugavegi í Reykjavík, við Hlemm, þegar hann hjólaði ofan í holu sem þarna var. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 27. júlí kl. 17.44 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sundagarða og Vatnagarða í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Sundagarða, en hinni norður Vatnagarða. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Sá var bæði réttindalaus og grunaður um ölvunarakstur að auki.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.