Frá vettvangi á Elliðavatnsvegi.
2 Júlí 2024 13:51

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29.  júní, en alls var tilkynnt um 39 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 24. júní. Kl. 19.04 var bifreið ekið utan í bifhjól á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ, á gatnamótum við Lækjarfit/Lyngás, en bæði ökutækin voru þá að leggja af stað eftir að hafa staðnæmst á rauðu ljósi. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.39 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg í Elliðaárdal í Reykjavík, neðan við Trönuhóla. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 28. júní. Kl. 10.10 var bifreið ekið suður Sægarða í Reykjavík og annarri bifreið norðvestur Vatnagarða svo árekstur varð með þeim á gatnamótunum. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Vatnagarða. Ökumaður og tveir farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 14.54 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því í hringtorgi á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, við Þingvallaveg, og rann með því á skiltastaur, sem brotnaði við áreksturinn. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.23 var bifreið ekið suður Elliðavatnsveg í Garðabæ, við gatnamót Hattarvalla, og aftan aðra bifreið, sem hafði numið staðar til að taka vinstri beygju. Ökumaður aftari bifreiðarinnar sagðist hafa blindast af sólinni í aðdraganda slyssins. Hann og farþegi úr bílnum hans voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 29. júní. Kl. 0.45 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Bústaðavegi í Reykjavík, við Orkuna. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 9 var bifreið ekið vestur Kárnesbraut í Kópavogi og annarri bifreið norður Urðarbraut svo árekstur varð með þeim á gatnamótunum. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Urðarbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.