14 Ágúst 2024 14:54
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. ágúst, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 4. ágúst kl. 5.15 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Hafnarstræti í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 6. ágúst kl. 7.31 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á Hverfisgötu í Hafnarfirði. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. ágúst. Kl. 9.03 var bifreið ekið um Klukkurima í Reykjavík, að Langarima, en þar hugðist ökumaðurinn beygja og aka Langarima til norðurs. Á sama tíma þveraði hjólreiðamaður á reiðhjóli veginn á hraðahindrun svo árekstur varð með þeim á gatnamótunum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 17.09 var bifreið ekið vestur Borgartún í Reykjavík, að hringtorgi við Nóatún og síðan beygt suður Nóatún. Á sama tíma fór hjólreiðamaður á rafmagnshlaupahjóli austur Borgartún á göngustíg, inn á merkta gangbraut sem þverar Nóatún og þá varð árekstur með þeim. Ökumanninum og hjólreiðamanninum ber ekki saman um málsatvik. Sá fyrrnefndi sagði engan árekstur hafa orðið, en hinn sagði hið gagnstæða. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.01 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Laxatungu í Mosfellsbæ, við Kvíslartungu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 8. ágúst kl. 0.59 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg á milli Stekkjarbakka og Elliðaár í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. ágúst. Kl. 7.14 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli þegar hann rakst utan í annað reiðhjól þar sem hjólahópur var á ferðinni á Bæjarbraut í Garðabæ, nærri Krókamýri. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.34 var bifreið ekið vestur Þverholt í Mosfellsbæ, frá hringtorgi við Vesturlandsveg, og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. ágúst. Kl. 18.04 var bifreið ekið um bifreiðastæði í Skógarlind í Kópavogi og á rafmagnsreiðhjól. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.03 var bifreið ekið um Veltusund í Reykjavík og utan í gangandi vegfaranda. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.