Frá vettvangi í Kollafirði.
4 September 2024 12:34

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31.  ágúst, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 25. ágúst. Kl. 8.46 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Suðurlandsbraut, en hinni norður Grensásveg svo árekstur varð með þeim. Vitni sagði grænt ljós hafa logað fyrir akstursstefnu norður Grensásveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.39 féll ökumaður rafmagnshlaupahjóls af því í Hamratanga í Mosfellsbæ, við Bogatanga. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm  og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 26. ágúst kl. 12.21 var bifreið ekið á frárein frá Víkurvegi í Reykjavík, að Vesturlandsvegi, og á hjólreiðamann á reiðhjóli, sem var að þvera fráreinina á gangbraut. Engin umferðarmerki eru við gangbrautina og hluti yfirborðsmerkingar er afmáður. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 28. ágúst kl. 8.37 féll ökumaður rafmagnshlaupahjóls af því á Hverfisgötu í Reykjavík þegar hjólið hemlaði af sjálfu sér, að hans sögn. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 29. ágúst. Kl. 19.25 féll ökumaður rafmagnshlaupahjóls af því á Rauðarárstíg í Reykjavík, við Bríetartún, þegar hann ætlaði að hjóla upp á gangstétt. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.15 varð tveggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi í Kollafirði, við Mógilsá, en þeim var ekið úr gagnstæðri átti. Önnur bifreiðin hafnaði utan vegar og var ökumaður hennar fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 30. ágúst kl. 4.47 féll ökumaður rafmagnshlaupahjóls af því á Grensásvegi í Reykjavík, við Suðurlandsbraut. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm  og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.