Frá vettvangi á Eiðsgranda.
13 September 2024 14:00

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7.  september, en alls var tilkynnt um 40 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 1. september. Kl. 17.27 var bifreið ekið vestur Eiðsgranda í Reykjavík, við Boðagranda, og aftan á aðra bifreið sem hafði stöðvað vegna gangandi vegfaranda sem þveraði veginn á gönguleið. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, en í aðdraganda slyssins var hann að setja símann sinn i hanskahólfið og leit af veginum í andartak með fyrrgreindum afleiðingum. Og kl. 19.15 var bifreið ekið vestur Fífuhvammsveg við Lindarveg í Kópavogi, út úr Hvammstorgi, og á rafmagnshlaupahjól, sem var ekið suður yfir götuna á merktri gangbraut. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 2. september kl. 18.06 varð árekstur rafmagnshlaupahjóls og bifhjóls á göngubrú yfir Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ, á milli Löngufitjar og Breiðáss, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 3. september. Kl. 3.41 hafnaði bifreið utan vegar við Vesturlandsveg í Mosfellsbæ, hjá Hamratorgi, eftir að ökumaðurinn sofnaði undir stýri. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og/eða lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 8.42 var bifreið ekið vestur Sæbraut í Reykjavík, á gatnamótum við Kringlumýrarbraut, og á gangandi vegfaranda, sem var á leið yfir götuna til norðurs á gangbraut. Vitni sögðu ökumanninn hafa ekið gegn rauðu ljósi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 4. september kl. 19.18 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut í Reykjavík, að gatnamótum við Suðurfell, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á gatnamótunum á rauðu ljósi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 5. september kl. 14 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda á Geirsgötu í Reykjavík, við Steinbryggju. Gangandi vegfarandinn leitaði sér sjálfur læknisaðstoðar.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 6. september. Kl. 7.46 var bifreið ekið vestur Auðbrekku í Kópavogi, að gatnamótum við Skeljabrekku, og þar hugðist ökumaðurinn beygja til suðurs, en á sama tíma var reiðhjóli hjólað norður Skeljabrekku svo árekstur varð með þeim. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.21 varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á Digranesvegi við Dalveg í Kópavogi, við Dalstorg. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Digranesveg, en rafmagnshlaupahjólinu var ekið yfir merkta gangbraut sem þarna er, en mikil og hæg umferð var um gatnamótin á þessum tíma. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.35 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli í Kirkjustræti í Reykjavík, við Alþingishúsið, en þar á veginum er lokunarhlið. Kvaðst ökumaðurinn hafa séð það of seint og því stokkið af hjólinu til að forðast árekstur við hliðið. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 7. september kl. 16.29 var fólksbifreið ekið norður Heiðmerkurveg í Reykjavík, að Suðurlandsvegi, og þar hugðist ökumaðurinn beygja til vinstri, en á sama tíma var hópbifreið ekið austur Suðurlandsveg svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er á gatnamótunum gagnvart umferð um Suðurlandsveg. Þrír voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.