19 September 2024 10:51
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. september, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 9. september kl. 15.18 var bifreið ekið á húsvegg í Vallakór í Kópavogi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. september. Kl. 13.29 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól í Laufrima í Reykjavík, en hjólið var að þvera hraðahindrun á akbrautinni þegar slysið varð. Ökumaður bifreiðarinnar fór af vettvangi án þess að skeyta um hinn slasaða. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins tilkynnti um slysið eftir að hann var kominn til síns heima, en hann var í framhaldinu fluttur þaðan og á slysadeild. Og kl. 23.03 féllu ökumaður og farþegi af rafmagnshlaupahjóli í Austurstræti í Reykjavík, á göngugötunni við Pósthússtræti. Hvorugur þeirra var með öryggishjálm, en ökumaðurinn er grunaður um ölvun. Báðir voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 11. september kl. 10.59 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg á Kjalarnesi, á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga, og aftan á aðra bifreið sem hafði stöðvað vegna umferðar fram undan. Ökumaðurinn aftari bifreiðarinnar sagði að í aðdragandanum hefði sólin byrgt honum sín. Við áreksturinn hafnaði fremri bifreiðin utan vegar, en ökumaður hennar og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 12. september. Kl. 7.21 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg, skammt frá Nesjavallaleið, og aftan á aðra bifreið, sem var þversum á veginum. Skömmu áður hafði þeirri bifreið verið ekið á vegrið og hún þá kastast til, snúist tvo hringi á akbrautinni og síðan stöðvast. Ökumaðurinn sem á eftir kom sagðist ekki hafa náð að bregðast við þar sem sólin byrgði honum sín. Á vettvangi var hiti um frostmark og hálka á veginum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 7.35 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu í Dalbrekku í Kópavogi, við Seljabrekku. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.08 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Vallhólma í Kópavogi þegar hann ók ofan í misfellu. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. september. Kl. 17.53 féll ökumaður af torfæruhjóli þegar hann ók á stein á línuvegi í Mosfellsbæ, skammt frá bifreiðastæði við Helgufoss. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.04 féll gangandi vegfarandi utan í strætisvagn, að því að talið er, á Kaplaskjólsvegi í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 14. september kl. 22.37 varð tveggja bíla aftanákeyrsla í Norðurhellu í Hafnarfirði. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, en hann sagði að í aðdragandanum hefðu hemlar bifreiðar hans ekki virkað þegar átti að bremsa.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.