Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi við Lækjarfit.
26 September 2024 18:05

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21.  september, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. september. Kl. 7.58 varð árekstur fólksbifreiðar og strætisvagns á gatnamótum Seljabrautar og Jaðarsels í Reykjavík. Í aðdragandanum var fólksbifreiðinni ekið austur Seljabraut, en strætisvagninum norður Jaðarsel svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er gagnvart umferð um Jaðarsel. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 8.37 var ökumaður rafmagnshlaupahjóls að þvera Nesveg á sama tíma og bifreið var ekið austur götuna svo árekstur varð með þeim. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild, en hann sagði að kyrrstæðar bifreiðar við Nesveg hefðu byrgt honum sýn í aðdraganda slyssins. Kl. 10.51 var bifreið ekið austur Miklubraut í Reykjavík, við Klambratún, og á rafmagnshlaupahjól, sem var ekið á gangbraut yfir götuna. Ökumaður bifreiðarinnar fór af vettvangi, en kom þangað aftur fótgangandi þegar viðbragðsaðilar voru að störfum. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.41 var strætisvagni ekið aftan á fólksbifreið í hringtorgi á gatnamótum Borgartúns og Katrínartúns í Reykjavík, en ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði numið staðar til að hleypa vegfaranda yfir gangbraut sem þarna er. Farþegi í strætisvagninum var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 18. september kl. 11.11 varð tveggja bíla árekstur á Arnarnesvegi í Kópavogi, við Rjúpnaveg. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt og rann önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming, að því er virðist, en blautt var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 19. september. Kl. 2.04 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, við Leirvogsá, þegar hann reyndi að sveigja frá dýri á akbrautinni. Við það skall bifreiðin á vegriðum báðum megin við akbrautina, uns hún stöðvaðist á öfugum vegarhelmingi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 10.44 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar í Garðabæ. Báðum bifreiðunum var ekið um Hafnarfjarðarveg, annarri til suðurs og hinni til norðurs. Síðarnefndi ökumaðurinn hugðist beygja til vinstri á gatnamótunum þegar áreksturinn varð, en ágreiningur er uppi um stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 20. september. Kl. 0.23 féll ökumaður rafmagnshlaupahjóls af því í Gnoðarvogi í Reykjavík, við Engjaveg, þegar hjólið hafnaði á grindverki. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.07 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Lækjarfitjar í Garðabæ. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Hafnarfjarðarveg, en hinni vestur Lækjarfit og inn á gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Ágreiningur er uppi um stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 21. september. Kl. 15.16 var bifreið ekið frá Orkunni út á Bústaðaveg í Reykjavík, nærri Litluhlíð, og í veg fyrir bifhjól sem var á leið austur Bústaðaveg. Við það nauðhemlaði ökumaður bifhjólsins og féll af því. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.43 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, við N1 í Fossvogi, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Í aðdragandanum sagðist ökumaður aftari bifreiðarinnar hafa litað af veginum til að stilla útvarpið með fyrrgreindum afleiðingum. Hinn sami var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.