Frá vettvangi við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.
9 Janúar 2025 13:10

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og níu slösuðust í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. desember – 4. janúar, en alls var tilkynnt um 47 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 29. desember. Kl. 9.58 varð tveggja bíla árekstur í Skógarhlíð í Reykjavík, á móts við Bus Hostel, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum var annar ökumannanna í símanum og gætti ekki að sér fyrr en það var orðið of seint, þ.e. bifreið hans var komin yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.08 var bifreið ekið suður frárein frá Hafnarfjarðarvegi í Kópavogi, inn í Hamratorg og áfram suður Hamraborg, og á gangandi vegfaranda á móts við biðstöð strætó hjá tónlistarskóla/bókasafni. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa blindast af sólinni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 30. desember. Kl. 8.03 var bifreið ekið norður Sæbraut í Reykjavík, um gatnamót Skeiðarvogs og Kleppsmýrarvegar, og á reiðhjól á gönguþverun. Ökumaðurinn ræddi mjög stuttlega við hjólreiðamanninn og ók síðan af vettvangi, en ekki er vitað hver hann er. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 9.55 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið vestur Reykjanesbraut í Garðabæ, við gatnamót Álftanesvegar, sem við það hafnaði á umferðarljósum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 31. desember kl. 13.08 fór bifreið út af bryggjunni á Ægisgarði í Reykjavík og í höfnina. Einn var í bílnum og var hann fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn lést á Landspítalanum nokkrum dögum eftir slysið. Lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Föstudaginn 3. janúar kl. 10.12 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið vestur Reykjanesbraut í Hafnarfirði, eftir að hafa beygt inn á aðrein að Krísuvíkuvegi, sem við það hafnaði á umferðarskilti og ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 4. janúar kl. 18.01 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg, við Hólmsá, og aftan á aðra bifreið sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina þar fyrir framan. Einn var fluttur á slysadeild og tveir fóru þangað á eigin vegum.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.