11 Mars 2025 16:56
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. mars, en alls var tilkynnt um 48 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 3. mars. Kl. 19.08 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hvalfjarðarvegi í Kjósarhreppi, við Hammsvík. Við það hafnaði hún utan vegar og valt 1-2 veltur. Þæfingsfærð, snjókoma og rok var á vettvangi. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.19 missti ökumaður á leið vestur Suðurlandsveg, við Hólmsland, stjórn á bifreið sinni. Við það hafnaði hún utan vegar og valt eina veltu. Í aðdragandanum sagði ökumaðurinn að eitt dekkið á bílnum hefði farið ofan í stóra holu á veginum og við það hann snúist með fyrrgreindum afleiðingum. Þæfingsfærð og snjókoma var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 4. mars kl. 6.52 missti ökumaður á leið suður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, við Löngufit, stjórn á bifreið sinni. Við það hafnaði hún á ljósastaur. Í aðdragandanum viðurkenndi ökumaðurinn að hafa sofnað undir stýri enda verið þreyttur og hafa sofið illa um nóttina. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 5. mars kl. 14.01 varð tveggja bíla árekstur í Víkurhvarfi í Kópavogi. Annarri bifreiðinni var ekið vestur götuna, en hinni inná hana frá bifreiðastæði þegar árekstur varð með þeim. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 6. mars kl. 8.01 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls á Fiskislóð í Reykjavík, við Krónuna. Ökumanninum og hjólreiðamanninum bar ekki saman um tildrög slyssins, en sá síðarnefndi var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 6. mars. Kl. 8.09 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut í Arnarbakka í Reykjavík, við Eyjabakka. Grunur er um að móða á innanverðri bílrúðunni hafi skert útsýni ökumannsins. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.30 var bifreið ekið á reiðhjól í Efstaleiti í Reykjavík, við Lágaleiti. Þarna var hjólreiðamaður að þvera veginn á upphækkun/hraðahindrun þegar slysið varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.07 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, á móts við Staldrið, og aftan á tvær aðrar bifreiðar á sömu leið. Við það valt fyrstnefnda bifreiðin, en ökumaður hennar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 8. mars. Kl. 17.40 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Álverð, en þær voru á sömu leið. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.04 varð tveggja bíla árekstur á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ, við Arnarnesmýri, en þeim var báðum ekið til suðurs. Við áreksturinn valt önnur bifreiðin og hafnaði á þakinu. Vitni sögðu að annarri bifreiðinni hefði verið ekið á ofsahraða. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.