25 Mars 2025 14:32
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. mars, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 17. mars. Kl. 8.30 var vörubifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, við Mjódd, og aftan á fólksbifreið á sömu leið. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl 10.45 var bifreið ekið á rafskútu í Álfabakka í Reykjavík. Bifreiðinni var ekið frá bifreiðastæði þegar rafskútunni var á sama tíma ekið á reiðhjólastíg til norðurs svo árekstur varð með þeim. Ökumaður rafskútunnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 19. mars. Kl. 13.08 varð tveggja bíla árekstur gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar í Reykjavík. Annar ökumannanna viðurkenndi að hafa ekið gegn rauðu ljósi í aðdraganda slyssins. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.27 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Karlabraut í Garðabæ. Í aðdraganda slyssins hljóp vegfarandinn út á götuna aftan við kyrrstæðan strætisvagn, án þess að líta til hliðar, en bifreiðin kom úr gagnstæðri átt. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. mars. Kl. 11.23 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, nærri Víkurvegi, og aftan á aðra bifreið á sömu leið. Báðir bifreiðirnar köstuðust síðan áfram á tvær aðrar, kyrrstæðar bifreiðar, en þarna hafði verið þrengt að umferð vegna framkvæmda og voru merkingar í samræmi við það. Tveir ökumannanna og einn farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.06 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg í Reykjavík, gegnt Straumi, og aftan á aðra bifreið á sömu leið, sem hafði dregið úr hraðanum vegna umferðar fram undan. Ökumaður aftari bifreiðarinnar viðurkenndi að hafa í aðdraganda slyssins litið af veginum og horft á símann sinn í eitt andartak með fyrrgreindum afleiðingum. Hann og farþegi úr bílnum hans voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 21. mars kl. 16.03 varð tveggja bíla árekstur á Túngötu í Reykjavík, við Hólavallagötu, en þeim var ekið í sömu átt. Í aðdraganda slyssins ákvað annar ökumannanna að taka U-beygju og sá sem á eftir kom náði ekki að forða árekstri og hafnaði bíll hans í hlið hins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.