1 Apríl 2025 12:02
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. mars, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 24. mars kl. 7.48 var bifreið ekið á reiðhjól á gatnamótum Brekkugerðis og Stóragerðis í Reykjavík. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð reiðhjólið í aðdraganda slyssins. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 26. mars kl. 1.48 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hafravatnsvegi í Mosfellsbæ, en við það hafnaði hún utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 27. mars kl. 20.15 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, að gatnamótum við Álftanesveg, og aftan á aðra bifreið á sömu leið. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 28. mars. Kl. 10.30 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Stórhöfða og Gullinbrúar í Reykjavík. Í aðdraganda slyssins var annarri bifreiðinni ekið vestur Stórhöfða, en hinni suður Gullinbrú að Höfðabakka þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna viðurkenndi að hafa ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.33 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið í Efstasundi í Reykjavík. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.