Frá vettvangi við FH-torg í Hafnarfirði.
23 Apríl 2025 16:10

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. apríl, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 15. apríl. Kl. 15.36 var bifreið ekið út af bifreiðastæði á Fiskislóð í Reykjavík og á reiðhjól, sem var hjólað austur götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.24 varð tveggja bíla árekstur í FH-torginu í Hafnarfirði, við Bæjarhraun/Flatahraun. Ökumaður í innri hring hugðist aka út úr hringtorginu, en lenti þá í árekstri við bifreið sem var ekið í ytri hring. Annar ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 18. apríl kl. 11.40 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Garðaveg í Hafnarfirði, á móts við Víðistaðakirkju. Grunur er um að stýrið hafi brotnað og ökumaðurinn misst á stjórn á hjólinu við það. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardagurinn 19. apríl kl. 4.18 var bifreið ekið á ljósastaur við hringtorg á mótum Smiðjuvegar og Stekkjarbakka í Kópavogi. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.