Frá vettvangi á Gjáhellu/Breiðhellu.
5 Maí 2025 15:35

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. apríl – 3. maí, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Mánudaginn 28. apríl kl. 17.27 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut á Hringbraut í Hafnarfirði, við Flensborgarskóla. Í aðdragandanum hafði vegfarandinn verið að koma úr strætó og gekk aftan við hann út á gangbrautina þegar bíll kom aðvífandi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 29. apríl kl. 13.14 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Gjáhellu og Breiðhellu í Hafnarfirði, en við það valt önnur bifreiðin. Á þessum stað er biðskylda og beinist rannsókn málsins m.a. að því að hún hafi ekki verið virt í umrætt sinn. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 30. apríl kl. 16.39 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Garðabæ og aftan á aðra bifreið, sem var á sömu leið. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 2. maí. Kl. 3.47 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Garðabæ, á móts við IKEA, og á ljósastaur við götuna. Rannsókn málsins beinist að því að ökumaðurinn hafi sofnað við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.29 varð tveggja bíla árekstur í FH-torginu í Hafnarfirði, við Fjarðarhraun. Ökumaður í innri hring hugðist aka út úr hringtorginu, en lenti þá í árekstri við bifreið sem var ekið í ytri hring. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 3. maí kl. 13.01 var bifreið ekið á rúðu verslunar í Engihjalla í Kópavogi þegar ökumaðurinn ætlaði að leggja í stæði við húsið. Og í framhaldinu bakkaði hann bíl sínum á kyrrstæða bifreið, sem þarna var lagt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.