13 Maí 2025 11:37
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. maí, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 4. maí. Kl. 16.07 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í hringtorgi (Öldutorg) á Kaldárselsvegi í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.25 féll ökumaður af rafskútu þegar hann ók fram af kanti í Hraunbergi í Reykjavík. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 5. maí kl. 16.16 féll ökumaður af rafmangshlaupahjóli á Hallgrímstorgi í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 6. maí. Kl. 16.01 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls í Bjarkarholti í Mosfellsbæ, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum hugðist ökumaður bifreiðarinnar beygja út af götunni og inn á bifreiðastæði þegar bifhjólið kom aðvífandi svo árekstur varð með þeim. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.44 missti ökumaður bifreiðar, á leið suður Reykjanesbraut í Kópavogi, stjórn á henni. Við hafnaði bifreiðin á vegriði og kastaðist síðan á aðra bifreiðin á sömu leið, áður en hún fór síðan niður grasbrekku og staðnæmdist utan vegar við Fífuhvammsveg. Rannsókn málsins beinist m.a. að þvi hvort ökumaðurinn hafi sofnað við stýrið eða fengið aðsvif. Báðir ökumennirnir og einn farþegi voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. maí. K. 14.19 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól í Lönguhlíð í Reykjavík, við Eskitorg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.13 var bifreið ekið á aðra bifreið á Holtavegi í Reykjavík, við Sæbraut, en ökumaður þeirrar fyrrnefndum virðist hafa verið að skipta um akrein þegar slysið varð, en bifreiðunum var ekið í sömu akstursátt. Annar ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.16 hafnaði bifreið utan vegar og valt þegar henni var ekið á afrein af Reykjanesbraut í Hafnarfirði, áleiðis til vesturs að Krýsuvíkurvegi. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. maí. Kl. 0.53 var bifreið ekið vestur Hringbraut í Reykjavík, að gatnamótum við Njarðargötu, og aftan á aðra bifreið á sömu leið, en ökumaðurinn hennar virðist hafa hægt ferðina og ætlað að beygja inn á Njarðargötu þegar áreksturinn varð. Fjórir voru í þeirri bifreið og voru þeir allir fluttir á slysadeild. Og kl. 23.56 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á torginu við Hörpu í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.