Frá vettvangi á Strandvegi í Reykjavík.
20 Maí 2025 14:28

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. maí, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 11. maí. Kl. 14.40 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bergstaðastrætis og Baldursgötu í Reykjavík, en þarna er biðskylda gagnvart umferð um Bergstaðastræti, sem virðist ekki hafa verið virt í aðdraganda slyssins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 17.37 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut í Reykjavík, á móts við Vatnsendahvarf, og aftan á aðra bifreið á sömu leið, en hún var kyrrstæð á rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.07 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli í Borgartúni í Reykjavík. Hann fór sjálfur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 12. maí. Kl. 7.57 var bifreið ekið norður Höfðabakka í Reykjavík, að gatnamótum við Bíldshöfða, og aftan á aðra bifreið á sömu leið, en hún var kyrrstæð á rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.29 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á Vitastíg í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 13. maí. Kl. 12.46 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Strandvegi í Reykjavík, við Rimaflöt, en þeim var öllum ekið til suðurs. Talið er að ökumaður fremstu bifreiðarinnar hafi nauðhemlað þegar hundur hljóp yfir götuna með fyrrgreindum afleiðingum. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.20 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli í Sólheimum í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 14. maí kl. 19.30 féll ökumaður af rafskútu á göngustíg í Garðahrauni í Garðabæ. Hann missti stjórn á henni þegar ekið var út úr beygju og hafnaði utan vegar í hrauninu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 17. maí. Kl. 10.24 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli í Tröllateig í Mosfellsbæ, við Víðiteig, þegar framdekkið lenti í holu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11.20 varð árekstur í hringtorgi á mótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar í Mosfellsbæ. Ökumaður á bifhjóli í innri hring hugðist aka út úr hringtorginu, en lenti þá í árekstri við bifreið sem var ekið í ytri hring. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.33 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á Nauthólsvegi í Reykjavík, við Nauthól. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.14 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á gangstétt í Urriðaholtsstræti í Garðabæ. Í aðdragandanum bremsaði hann harkalega til að forðast árekstur við bifreið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.