Frá vettvangi við Strandveg í Reykjavík.
27 Maí 2025 12:18

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. maí, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 18. maí kl. 13.21 var bifreið ekið á rafskútu á Rauðarárstíg í Reykjavík, við Njálsgötu. Ökumaður rafskútunnar fór sjálfur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 19. maí. Kl. 14.43 varð tveggja bíla árekstur á Strandvegi í Reykjavík, við Rimaflöt. Í aðdragandanum ætlaði annar ökumannanna að taka U-beygju, en þá varð árekstur með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 16.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Lambhagavegar og Mímisbrunnar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Lambhagaveg og hinni vestur Mímisbrunn þegar árekstur varð með þeim, en biðskylda er á Mímisbrunni. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.13 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls á gatnamótum Njarðargrundar og Marargrundar í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Marargrund og reiðhjólinu hjólað norður Njarðargrund svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. maí. Kl. 16.29 var bifreið ekið austur Bústaðaveg í Reykjavík, við Veðurstofuna, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 17.49 var bifreið ekið um Álfabakka í Reykjavík, inn á bifreiðastæði Garðheima, og á reiðhjól, sem þveraði göngu- og hjólastíg sem þarna er. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.13 féll ökumaður af bifhjóli á Strandgötu í Hafnarfirði, við Fjörukrána, þegar hann þurfti að bremsa vegna bifreiðar fyrir framan, en hún hafði stöðvað vegna vegfarenda sem ætluðu yfir gangbraut.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. maí. Kl. 11.20 féll maður af reiðhjóli á hjólastíg í Gauksási í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 19.30 var bifreið ekið á vegfaranda, sem var á leið yfir Dalveg í Kópavogi á merktri gangbraut. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.16 féll ökumaður af bifhjóli á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Hlíðartorg. Vitni sögðu hann hafa ekið ógætilega og verið að prjóna í aðdragandanum. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 22. maí kl. 1.53 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli í undirgöngum í Vesturbergi í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 24. maí. Kl. 0.26 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á Flatahrauni í Hafnarfiðri, við skiltavegg hjá Kaplakrika. Í aðdragandanum er talið að hann hafi fipast við að mæta rafskútu í blindbeygju. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.09 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á Hverfisgötu í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.