Frá vettvangi í Hlíðarsmára.
3 Júní 2025 16:53

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. maí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 25. maí kl. 10.59 var bifreið ekið á vegrið í Hamraborg í Kópavogi. Talið er að orsök slyssins megi rekja til veikinda ökumannsins. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 26. maí kl. 0.03 valt bifreið í Hlíðarsmára í Kópavogi. Ökumaðurinn var að koma frá bílaapótekinu í Hæðarsmára og beygði óvart inn á Arnarnesveg í stað Hlíðarsmára. Ók þá utan vegar til að komast aftur inn á Hlíðarsmára, en við það valt bifreiðin eins og áður sagði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 30. maí. Kl. 13.37 var rafskútu ekið á kyrrstæða bifreið í Borgartúni í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 16.38 datt farþegi í strætisvagni þegar vagninn þurfti að hemla snögglega í Lækjargötu í Reykjavík, við Vonarstræti. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.15 féll ökumaður af vespu í Hörgstúni í Garðarbæ. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 31. maí. Kl. 0.06 var rafmagnshlaupahjóli ekið á tré við Nýbýlaveg í Kópavogi, við Birkigrund. Ökumaðurinn, sem í aðdraganda slyssins hélt á pizzakassa í annarri hendinni, var ölvaður og ekki með öryggishjálm. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.05 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Elliðavatnsvegi í Garðabæ, við Setberg, Við það hafnaði bifreiðin utan vegar og í trjágróðri. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.