Frá vettvangi í FH-torgi.
18 Júní 2025 10:44

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. júní, en alls var tilkynnt um 43 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. júní. Kl. 16 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því á Þingvallavegi í Mosfellsbæ og féll af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.29 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því á Reykjanesbraut í Kópavogi, við Arnarnesveg, og féll af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 10. júní kl. 14.22 varð árekstur bifhjóls og bifreiðar í FH-torginu í Hafnarfirði, við Fjarðarhraun/Flatahraun. Ökumaður bifhjólsins í innri hring hugðist aka út úr hringtorginu, en lenti þá í árekstri við bifreið sem var ekið í ytri hring, en ökumaðurinn hennar var sömuleiðis á leið út úr hringtorginu þegar slysið varð. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 14. júní. Kl. 2.30 féll ökumaður af rafskútu á Melhaga í Reykjavík, við Kaffi Vest, þegar hann þurfti að sveigja frá lausum hundi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.34 var bifreið ekið á þrjár kyrrstæðar bifreiðar á bifreiðastæði i Skeifunni í Reykjavík, en ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur. Einn var í kyrrstæðum bifreiðunum þegar áreksturinn varð og var sá fluttur á slysadeild. Og kl. 15.31 lenti ökumaður undir eigin bifreið á bifreiðastæði við Hrísmóa í Garðabæ. Í aðdragandanum hafði hann lagt bifreiðinni og setti hana um leið óvart í bakkgír. Við það rann bifreiðin af stað og á ökumanninn, sem var kominn út úr bílnum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.