1 Júlí 2005 12:00

Fyrsta helgin í júlímánuði er ein mesta ferðahelgum ársins. Ríkislögreglustjóri mun því helgina 1. til 3. júlí halda úti öflugri löggæslu til aðstoðar lögreglustjórum. Fjórar lögreglubifreiðar á vegum ríkislögreglustjóra verða á ferðinni vegna umferðareftirlits og almenns eftirlits. Eftirlitið verður aðallega á vegum á Suðurlandi, Suðausturlandi, Vesturlandi og Norðurlandi. Við umferðareftirlitið verða notaðar merktar lögreglubifreiðar sem búnar eru hraðamyndavélum.

Þegar fólk yfirgefur heimili sitt eins og vænta má um þessa helgi er ástæða til að minna á að ganga tryggilega frá öllu áður en lagt er af stað og gera viðeigandi ráðstafanir gegn innbrotum. Góðar leiðbeiningar í þessum efnum er að finna á heimasíðu lögreglunnar logreglan.is undir Forvarnir, fræðsla og viðbrögð. Þá veitir lögreglan á hverjum stað nánari upplýsingar um þessi atriði.

Lögreglan verður sem fyrr með umferðareftirlit á þjóðvegum og almennt eftirlit í lögsagnarumdæmunum og munu lögregluliðin einnig nota ómerkta bíla við þetta eftirlit.

Ríkislögreglustjóri óskar öllum góðrar helgar og hvetur ökumenn sérstaklega til að sýna varúð og tillitsemi í umferðinni.